Stjórnlagaþing

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 12:38:25 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns varðandi 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Það er alveg ljóst og hefur komið fram hér í þingsal að í þingflokki framsóknarmanna eru skiptar skoðanir um hvernig afgreiða eigi þetta mál. Skoðanir eru skiptar um það hvort frumvarpið gangi nógu langt. Ég tel mjög mikilvægt að við virðum ólíkar skoðanir því að þetta er mál sem snertir líka prinsippmál hvers og eins, þetta er það stórt mál.

Ég hef fyrst og fremst lagt áherslu á að úr því þessi vegferð var ákveðin af meiri hluta Alþingis og af ríkisstjórnarmeirihlutanum reyni menn að fara með málið með þeim hætti inn í lokadaga þingsins að taka það til hliðar og reyna að koma því í einhvern farveg. Ég er ekki að segja að við komumst hjá því að greiða atkvæði um það áður en við frestum þingi. Ég hef heldur ekki sagt hvernig ég ætli að greiða atkvæði, við skulum alveg hafa það á hreinu.

Það hlýtur hins vegar að vera mjög erfitt fyrir þá sem fá það verk í hendur, hvernig sem þeir eru valdir til þess, að endurskoða stjórnarskrána ef einungis lítill meiri hluti þingmanna hefur hugsanlega samþykkt þá vegferð, það hlýtur að vera mjög vont. Ég hefði talið mjög mikilvægt að fá í það minnsta töluvert styrkan meiri hluta til þess að fara í slíka vinnu. En einhvers staðar verðum við að sjálfsögðu að byrja, hv. þingmenn. Ef við ætlum að fara í endurskoðun á stjórnarskránni, sem ég tel mikilvægasta atriðið í allri þessari umræðu, verðum við að byrja einhvers staðar. Ég tel að því miður hafi ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi farið öfugu megin fram úr með þetta mál og hleypt því enn og aftur í tóma vitleysu.