Bygging nýs Landspítala við Hringbraut

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 13:34:31 (0)


138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:34]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er stefna Framsóknarflokksins að byggja nýjan spítala. Það er stefna sem var endursamþykkt á flokksþingi í fyrra eftir hrun. Við gerðum okkur grein fyrir því að hart yrði í ári en lífeyrissjóðirnir munu koma að þessu verkefni. Framsóknarflokkurinn styður þetta mál og ég vil nefna að þrír flokkar hafa komið að þessu með beinum hætti. Ég vil nefna Ingibjörgu Pálmadóttur, Jón Kristjánsson, þá er hér stendur, hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson og síðar hv. þm. Ögmund Jónsson og hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur. Að mínu mati er því mjög góð og þverpólitísk samstaða um að fara í þetta verkefni.

Landspítalinn er stærsti vinnustaður landsins. Þar vinna 5 þúsund manns og 100 þúsund sjúklingar leggjast þar inn á ári. Þetta eru viðkvæmir hópar og það er alveg ljóst, miðað við alla þá skoðun sem hefur farið fram á málinu, að það er dýrast að gera ekki neitt, það er langdýrast að gera ekki neitt. Það er ekkert annað að gera en að segja já með mikilli gleði í þessu máli. Ég mun segja já við öllum þeim skrefum sem færa okkur nær því að hér rísi nýr spítali. Ég segi já.