Geislavarnir

Mánudaginn 14. júní 2010, kl. 12:22:46 (0)


138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

geislavarnir.

543. mál
[12:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Húð barna og unglinga er mun viðkvæmari fyrir geislun en húð fullorðinna. Það hefur verið sannað. Það er líka búið að sanna, og það var gert í fyrra, árið 2009, að ljós sem kemur frá ljósabekkjum er krabbameinsvaldandi. Þetta er forvarnamál. Við eigum að hugsa um börnin okkar og unglingana og banna það að sjálfsögðu að börn og unglingar fari í ljósabekki. Hvert mannslíf skiptir miklu máli. Það kostar reyndar líka, þó að maður eigi ekki að tala um kostnað í sambandi við mannslíf. Það hefur verið reiknað út að hvert mannslíf kostar tæplega 500 millj. kr. ef menn hafa áhuga á því. Við eigum sérstaklega að verja börn okkar af umhyggju en líka vegna lýðheilsu almennt í landinu. Fræðsla hefur ekki skilað sér til barna, því miður. Það kom fram í umfjöllun heilbrigðisnefndar. Þess vegna eigum við að grípa inn í og það er ábyrgðarhluti (Forseti hringir.) að segja nei við þessu máli. Ég mun segja já.