Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 11:15:34 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Félagi nr. 1 og félagi nr. 2 í Hollvinasamtökum Árneshrepps eru algjörlega sammála í þessum efnum. Við leggjum sömu áherslurnar og erum brýndir áfram af heimamönnum. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, við verðum að komast í framkvæmd á Veiðileysuhálsinum. Það var búið að leggja að mig minnir 60 millj. kr. í þessa framkvæmd. Hins vegar var ljóst að það hefði ekki dugað. Við endurskoðun samgönguáætlunar á næsta ári átti að reyna að bæta við öðrum 60 millj. kr. til að komast í þessa framkvæmd. Í rauninni hefði það kannski ekki verið viturlegt að byrja með 60 milljónir án þess að sjá eitthvert framhald í þessum efnum.

Vegurinn frá Bjarnarfjarðarhálsinum og inn í Steingrímsfjörðinn að Staðaránni er flöskuháls. Nú er búið að leggja mikla peninga í veginn um Selströndina frá Drangsnesi að Bassastöðum. Það hefur haft mikla þýðingu í för með sé. Meðan framkvæmdinni er ólokið er ekki hægt að aflétta þungatakmörkunum á vorin. Það hamlar byggð á Drangsnesi og hefur auðvitað líka áhrif á byggðina norður í Árneshreppi þar sem vegurinn er upphaf leiðarinnar þangað norður.

Við þingmenn kjördæmisins ræddum það hvort kæmi til greina að taka peninga af framkvæmdum í Steingrímsfirði og setja í framkvæmdir á Bjarnarfjarðarhálsi. Við ætlum að bíða átekta og sjá hvort ekki losni um fjármuni frá útboðinu í Steingrímsfirðinum. Við hljótum að skoða þá hluti og fara í framkvæmdir á Bjarnarfjarðarhálsinum. Ég er hins vegar sammála hæstv. ráðherra að við megum ekki gleyma veginum yfir Veiðileysuhálsinn. Þótt ekki séu til fjármunir í það núna þá koma aðrir tímar. (Forseti hringir.) Við endurskoðum þetta líka í haust.