Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 14:27:26 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[14:27]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sem betur fer, og kemur ekki á óvart, lítill skoðanamunur hjá mér og hv. síðasta ræðumanni um uppbyggingu samgöngumála í landinu. Hann tók undir það sem ég vara við varðandi hugmyndir um alþjóðlega flugstjórnarmiðstöð á Akureyri, að hún fari ekki úr böndum, því að það er eitt að byggja eðlilega stöð, stækka hana á eðlilegan hátt, og annað að byggja í arabískum stíl eða síberískum sem byggir á víðáttubyggingum sem eru ekkert notaðar. (Gripið fram í: Eða 2007-stíl.) Hann er miklu eldri, sá stíll. Það er til að mynda alveg klárt að það verður að stækka flughlöðin á Akureyri, það er skynsamlegt einmitt með tilliti til þess að skapa þar tengingu fyrir flutninga beint frá byggð til byggðar úti í hinum stóra heimi, þ.e. ekki bara frá býli til borgar heldur frá byggð til byggðar úti í hinum stóra heimi. Það er skynsamlegt að byggja upp á þann hátt.

Eitt sem hv. þingmaður vék líka að er hugmyndin um jarðgöng á milli lands og Eyja sem auðvitað verður að veruleika fyrr en síðar, því að hún er einfaldlega bisness, eins og hv. þm. Pétur Blöndal mundi mæla með, talsmaður fjár án hirðis. Ef slík aðstaða væri til kæmu flutningaskip frá Evrópu til að mynda til Vestmannaeyja og innan fimm klukkutíma væru gámar sem ættu að fara til Norðurlands eða öfugt komnir í heimahöfn. Það er skynsamlegt.