138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem sérstaklega hérna upp til að þakka hv. félags- og tryggingamálanefnd fyrir þá vinnu sem hún er búin að leggja í þetta frumvarp. Það er búið að smíða þetta frumvarp allt algjörlega upp á nýtt og í nefndinni hefur verið mjög samhent vinna hjá fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Þess vegna vildi ég koma hérna upp og taka fram að mér finnst það mjög miður að við séum að ræða þetta korter yfir fjögur að nóttu. Þetta er stórt mál. Þetta er mikilvægt mál. Ég hefði talið mun eðlilegra að fulltrúar nefndarinnar og aðrir þingmenn sem unnið hafa í skuldavandanum hefðu getað rætt þetta að degi til þar sem við hefðum getað sýnt fram á að við ástundum ekki aðeins vönduð vinnubrögð í nefndinni heldur að við ætlum líka að gera það hér í þingsal.

Ég vil líka sérstaklega taka fram að hér erum við að tala um að lagfæra löggjöf sem er tiltölulega nýleg. Það finnst mér mjög mikilvægt og hefði verið nauðsynlegt að ræða það hér sérstaklega. Þetta eru mjög mikilvægar lagfæringar á þeirri löggjöf. Við erum ekki að tala um einhverja endanlega lausn á skuldavanda heimilanna. Skuldavandinn er miklu meiri en svo að við getum farið að kýla fjórðung íslenskra heimila í gegnum greiðsluaðlögun. Það hefur aldrei verið gert í nokkru landi sem hefur boðið upp á greiðsluaðlögun.

Ég vildi bara ítreka þakklæti mitt sérstaklega til nefndarmanna sem hafa lagt á sig geysilega mikla vinnu. Ég fagna því líka að nú eigi að senda málið til umsagnar. Þingið mun síðan koma saman aftur og vonandi gefa sér tíma til að ræða jafnmikilvæga löggjöf og þessi er.