Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 16. júní 2010, kl. 15:55:20 (0)


138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það þáði enginn afganginn af tímanum mínum svo ég ætla að nýta hann sjálfur enda um margt að ræða í þessu máli. Eitt af því sem mér þykir sérkennilegt í rökstuðningi hæstv. forsætisráðherra fyrir frumvarpinu, eitt af mörgu, er sú nálgun á stjórnun sem faggrein sem þar birtist. Þarna virðist vera horfið frá nánast öllu því sem hefur verið upp á teningnum í þeim fræðum, jafnvel síðustu áratugina. Það er ekki lengur talið æskilegt að hafa litlar einingar og sérhæfðar, nei, það á að búa til stór bákn eins og IBM varð frægt fyrir og var næstum því farið á hausinn fyrir mörgum áratugum síðan. Það varð til þess að menn áttuðu sig á því að það væri kannski skynsamlegra að hafa menn hreyfanlegri í minni einingum.

Annað sem er sérkennilegt í þessu er að nú er útvistun allt í einu algerlega óásættanleg. Það er ekki í lagi að kaupa vinnu utan að úr ráðuneytunum sem maður hefði talið að væri æskilegt til að fá sjónarmið sem víðast að. Það er ekki einu sinni talið æskilegt að ráðuneyti reiði sig á undirstofnanir sínar. Nei, það eiga allir að vera embættismenn starfandi í hinu eina stóra bákni. Á sama tíma, þetta er ein af hinum mörgu þversögnum sem ég nefndi áðan, er talað um að þetta stóra bákn gefi meiri tækifæri til sérhæfingar. Maður sér ekki alveg fyrir sér hvernig á því stendur að í nýja atvinnuvegaráðuneytinu verði til að mynda hægt að ráða sérstakan sérfræðing í sauðfjárrækt sem hefði ekki verið viðeigandi að hafa í landbúnaðarráðuneytinu. Einhvern veginn er gert ráð fyrir því að sérhæfingin verði meiri í bákninu stóra. Eins verði menn betur í stakk búnir til að færa fólk á milli eftir því hvar mest er að gera hverju sinni. Nú þegar Þjóðverjar krefjast þess t.d. að Íslendingar hætti hvalveiðum væri væntanlega, samkvæmt þessari kenningu, hægt að færa hinn nýja sérfræðing í gagnaflutningum um sæstreng yfir í hvalveiðimálin rétt um stund meðan mikið er að gera þar. Senda hann til Þýskalands til að útskýra fyrir Þjóðverjum hvers vegna Íslendingar vilja veiða hval. Það stendur náttúrlega ekki steinn yfir steini í röksemdafærslunum fyrir þessum breytingum. (Gripið fram í.)

Nú ítreka ég aftur, það breytir því ekki að það er mikilvægt að ráðast í endurskipulagningu, það er mikilvægt að skera niður og spara. En þetta er ekki leiðin til þess. Trúir því nokkur maður sem kynnir sér málið og les rökin fyrir því að þetta muni leiða til sparnaðar, miðað við að því er haldið fram að hugsanlega hætti einhverjir störfum einhvern tíma og þá verði kannski ekki ráðnir jafnmargir í staðinn og þá sparist peningar? Nei, blasir ekki við að þessi sameining, eins og svo margar illa ígrundaðar sameiningar, muni frekar leiða til kostnaðaraukningar?

Í lokin vildi ég nefna að í raun er verið að leggja niður ráðuneyti. Sumir hafa haldið því fram að þetta sé bara spurning um að breyta um nafn og kannski er það það sem stendur í frumvarpinu. En af greinargerðinni blasir við að forsætisráðherrann ætlar að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið því það er sérstaklega tekið fram að í tilviki umhverfisráðuneytisins, eingöngu umhverfisráðuneytisins, sé ekki verið að leggja niður ráðuneyti. Þar er eingöngu verið að stækka ráðuneytið sem fyrir er.

En ég ætlaði að nefna eitt jákvætt í þessu. Í þessu máli höfum við séð fólk úr ólíkum flokkum benda á sömu vandamálin. Menn hafa verið óhræddir við það, stjórnarliðar hafa m.a. gagnrýnt frumvarpið svo þetta sýnir okkur hvernig þingið getur, ef menn þora, ráðið því sem það vill ráða. Það er enda hlutverk þingsins, löggjafans, að segja framkvæmdarvaldinu til. Nú skulum við vona að sá jákvæði punktur verði mjög stór jákvæður punktur í málinu og sýni okkur hvernig þingið getur, þegar menn standa saman, tekið völdin af framkvæmdarvaldinu, náð völdunum aftur þangað sem þau eiga að vera og þingmenn allra flokka sammælist vonandi um að hverfa af þessari vanhugsuðu braut og vinna frekar saman að samræmingu og endurskipulagningu í Stjórnarráðinu sem virkar.