Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Föstudaginn 03. september 2010, kl. 14:20:03 (0)


138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:20]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Traust almennings á Borgarahreyfingunni, nú Hreyfingunni, nam eingöngu 7,2% í síðustu kosningum. Samt var þar ekki á ferðinni stjórnmálaafl sem hafði neina forsögu og er með mjög opnar bækur þegar kemur að skoðunum á fjárframlögum. Það er greinilega ekkert samhengi þar á milli hvaða skoðun menn hafa í þessum efnum eða fortíð. Það er nokkuð sem hv. þingmaður og fleiri hér inni verða að svara þegar kemur að aðstöðumun einstaklinga til þátttöku í lýðræðinu. Á ekki að tryggja með einhverjum hætti að fólk sitji við sama borð þegar kemur að þátttöku í lýðræðinu, óháð til dæmis efnahag? Það er alveg ljóst að einstaklingur sem hefur rúm fjárráð hefur mun meiri tækifæri til að bjóða sig fram, taka sér frí frá vinnu, auglýsa, ráða fólk til starfa fyrir sig og helga tíma sinn alfarið framboðinu. Það fólk nýtur þess vegna ákveðins forskots í krafti stöðu sinnar og framlags. Við hljótum sem lýðræðissinnar, hv. þingmaður, að vilja bregðast við þessu með einhverjum hætti. Er ekki svo?