Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Föstudaginn 03. september 2010, kl. 15:48:54 (0)


138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:48]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ræðu hans. Hann talar um að þetta sé skref fram á við. Það er nú einmitt málið að í mínum augum og fjölda annarra er þetta stórt skref aftur á bak, því að með þessu frumvarpi er verið að segja að það eigi ekki að hafa niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til hliðsjónar þegar kemur að peningaþörf stjórnmálaflokkanna. Það er stóra skrefið aftur á bak í þessu máli.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður sagði um að nefndarálitið væri skilaboð, þá er frumvarpið náttúrlega skilaboðin. Og skilaboðin eru einmitt þau að það á að halda áfram með nafnlaus framlög og það á að halda áfram með framlög frá fyrirtækjum til að stjórnmálaflokkarnir, þ.e. þeir þingmenn sem eru fulltrúar fyrir þá, fái meiri pening. Það er ekki góð lexía.

Hv. þingmaður nefndi þingmannanefndina og þá niðurstöðu sem hún á eftir að skila. Mig langar að spyrja, ég hef ekki enn þá fengið svar við þeirri spurningu: Hvers vegna er ekki beðið eftir niðurstöðu þingmannanefndarinnar? Hvað liggur á? Það liggur ekkert á nema að það er einhver óskiljanleg fjárþörf að baki þessu frumvarpi, fjárþörf hjá fjórflokknum.

Hv. þingmaður reifaði þetta sem hluta af stærra máli og vissulega er það alveg rétt. Það þarf hugsanlega líka að fara yfir fjármál annarra hagsmunasamtaka. En ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann: Talaði hann nokkurn tíma um það í kosningabaráttu sinni fyrir kosningarnar síðastliðið vor, 2009, að hann mundi beita sér fyrir leynilegum framlögum til stjórnmálamanna og hreyfinga? Talaði hann nokkurn tíma um það að hann mundi beita sér fyrir því að fyrirtæki gætu styrkt stjórnmálasamtök?