Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 06. september 2010, kl. 15:33:50 (0)


138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tveir starfsmenn lagaskrifstofunnar staðfestu fyrir tíu mínútum að þeir starfsmenn sem ráðnir voru hafi verið ráðnir samkvæmt auglýsingu, þannig að hv. þingmaður ætti að kynna sér málið töluvert betur.

Hv. þingmaður rekur hornin í allt. Hún kom og reif sig niður í tær á síðastliðnum vetri ásamt félögum sínum í þingflokki framsóknarmanna yfir því að ekki væri gefinn nægilegur gaumur að skoðunum akademíunnar, það þyrfti að draga fram sérfræðinga. Í kjölfar rannsóknarnefndarskýrslunnar fá menn síðan þá sérfræðinga sem Framsóknarflokkurinn bað um til að gera úttekt á því á hvaða úrbætur er bent í skýrslunni. Þegar það liggur fyrir og menn ætla að fara eftir því, þá kemur hv. þingmaður og varla heldur meðvitund sökum þess hvað hún er hissa á því að menn skuli láta sér koma til hugar að fara eftir ráðum þeirra sérfræðinga sem Framsóknarflokkurinn bað um í vetur. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur og þetta er ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) sem á miklu betra skilið liggur í hinu pólitíska göturæsi og getur ekki náð sér upp. Hann er í 11–12% (VigH: Er ekki tíminn búinn?) eftir að hafa verið í 18% (Forseti hringir.) fyrir ári síðan. Með ræðuhöldum sínum á Alþingi á hv. þingmaður sennilega mestan þátt í því.