Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 06. september 2010, kl. 17:03:49 (0)


138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Margrét Thatcher sagði um sína ráðherra að þeir væru alltaf á skilorði. Ég lít svo á að ég sem utanríkisráðherra sé alltaf á skilorði og það sé alltaf gerð til mín krafa um að bæta mig, vanda mig og vinna betur. Svo einfalt er það.

Ég get upplýst hv. þingmann um það að ég var líka á fundi í Stjórnarráðinu um svipað leyti og þeir hæstv. herramenn sem hv. þingmaður nefnir hér. Það gerist oft að ráðherrar eru kallaðir til fundar við hæstv. forsætisráðherra. Það getur vel verið að hv. þingmaður kalli það að tugta menn til en oft hefur það gerst að ég hef verið kallaður í Stjórnarráðið til samræðna við hæstv. forsætisráðherra til þess að ræða þau mál sem hæst ber m.a. í mínum málaflokki, sem er umdeildur eins og hv. þingmaður veit.

Mér finnst sem hvað reki sig hér á annars horn í máli hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hélt sína góðu flæðandi tölu áðan og talaði um að það frumvarp sem hér er til umræðu sé í reynd pólitískt uppsagnarbréf hæstv. landbúnaðarráðherra. Fimm mínútum fyrr hafði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem að því er ég best veit situr enn í sama þingflokki og hv. þingmaður, lýst því yfir að hann skildi ekkert í því að utanríkisráðherra skyldi vera að draga atvinnumálaráðuneytið inn í þessa umræðu vegna þess að frumvarpið fjallaði ekki neitt um það. Þeir eru greinilega ósammála um hvað felst í þessu frumvarpi, þeir ágætu flokksbræður. Ég vil svo segja að hv. þingmaður flutti ágæta ræðu gegn því að menn settu á stofn atvinnuvegaráðuneyti. Hann sagði að vísu undir lok ræðu sinnar að hann væri alveg til í að skoða það hvort gera ætti breytingar á stjórnkerfi og stjórnsýslu. Það vill svo til að þegar hann kom til þings 2007 studdi hann að hér yrði (Forseti hringir.) sett upp eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það var stefna Sjálfstæðisflokksins og hún hefur ekkert breyst fremur en stefna (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins sem var samþykkt á flokksþinginu 2005.