138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi bara eitt einfalt og skýrt dæmi um það sem hægt er að benda á, að svo seint sem í maí 2008 fór af stað sú ólánssjóferð sem var stofnun reikninga Landsbankans í útibúum í Hollandi. Þá þegar höfðu stjórnvöld miklar áhyggjur af Icesave og þess sér stað víða í kerfinu. Reynt var að koma þeim yfir í dótturfélög í Bretlandi, að það skuli svo á sama tíma og seinna gerast að menn héldu áfram og færðu út kvíarnar í öðru landi. Það er vel að merkja tekið á því sem einu af ákæruatriðunum hversu slælega var staðið að því að reyna að firra landið þeirri voðahættu sem samanstóð af margra milljarða punda og evra reikningum í útibúum íslenskra banka á erlendri grund á ábyrgð innlánstryggingarkerfis okkar.

Þegar það lá fyrir — a.m.k. var viðskiptaráðuneytið sem þá var þeirrar skoðunar að Ísland væri ábyrgt eins og skjölin sýna — (Forseti hringir.) verður þetta aðgerðaleysi enn þá óskiljanlegra.