Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 11:55:22 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. flutningsmanni þessarar tillögu að sjálfstæðismenn hefðu skilað auðu í þingmannanefnd vegna þess að þeir komu ekki með sérstaka tillögu. Mig langar til að vita í hverju sú tillaga hefði átt að vera fólgin. Þessir fimm þingmenn ákveða að leggja fram tillögu um að ákæra menn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umræddri nefnd eru ekki sammála því. Það er algerlega fjarstæðukennt að þegar menn vilja ekki vera á einni tillögu þá þurfi þeir að gera aðra tillögu til að rökstyðja af hverju þeir eru ekki á hinni tillögunni. Þetta er bara í stíl við alla þessa vinnu sem þetta varðar og segir nú meira en hvert orð, hv. þm. Eygló Harðardóttir, um skilning hennar á því verkefni sem hér er á ferðinni.

Síðan er það alveg tvennt ólíkt, og það ætti þingmaðurinn að vita, verandi framámaður í sínum flokki, að eitt er pólitísk ábyrgð og annað er refsiábyrgð. Núna er verið að tala um refsiábyrgðina og mikið væri gaman ef þingmaðurinn gæti tekið þátt í þeirri umræðu. (EyH: Ég skal gera það á eftir.)