Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 11:10:14 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans. Eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær er ljóst að nokkuð stór hluti Samfylkingarinnar er á móti ákæru þessari og valtaði forsætisráðherra með eftirminnilegum hætti yfir Alþingi sjálft í þeirri ræðu miðað við orð hennar áður í umræðunni. Ég minni jafnframt á það að hún greiddi atkvæði með því að þetta ferli færi hér allt af stað.

Ríkisstjórnarsamstarfið hangir á bláþræði eina ferðina enn eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin er raunverulega óstarfhæf og hefur ekki þroska til þess að skila umboði sínu. Mig langar því til að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins: Er nokkuð annað í stöðunni en að boða til þingkosninga svo þingmenn geti endurnýjað umboð sitt og að sá meiri hluti sem nú situr fái þá endurnýjað það umboð sem hann hefur til þess að halda áfram með þetta mál?