Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 21. september 2010, kl. 15:55:07 (0)


138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki orðað þetta alveg nógu nákvæmlega. Ég held að við höfum vanmetið mikilvægi þess að halda aftur af aukningu ríkisútgjalda 2007 og áfram, ég er alveg sannfærður um það. Hitt er aftur annað mál að okkur var nokkur vorkunn því að við þurftum að bæta á eftir vanrækslusyndir yfirstjórnar Framsóknarflokksins í velferðarmálum í 12 ár þar á undan. Ástandið var þannig að við þurftum t.d. að koma á umbótum í kjörum lífeyrisþega sem hafa skilað 42% hækkun lægsta lífeyris til dagsins í dag og okkur hefur nú tekist að verja þá hækkun alveg þrátt fyrir það erfiða ástand sem núna er í ríkisfjármálum. Auðvitað var okkur vorkunn en þegar við komum að velferðarkerfi sem leið svo illa fyrir vanrækslusyndir fyrri stjórnvalda þá varð maður auðvitað líka að horfast í augu við þær staðreyndir að það var ekki hægt lengur að búa lífeyrisþegum í landinu þau sömu kjör og framsóknarmönnum hafði þótt þeir fullsæmdir af.