Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 17:35:36 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði auðvitað grannt á ræðu hv. þingmanns og heyrði það að hann gagnrýndi og var reiður yfir ýmsu sem gerðist á þessum tíma. Ég bendi hv. þingmanni á að í bókun í skýrslu þingmannanefndarinnar er vísað í frumvarp og þingsályktunartillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hv. þingmaður talaði um ónýtt blóð í Frakklandi sem ekki var skimað á sínum tíma. Ég bendi á það að þjóðinni blæðir núna heiftarlega. Fjöldi fjölskyldna er að missa heimili sín, fjöldi einstaklinga á mjög erfitt, allt er það út af því að tjónið var miklu meira af hruninu af því að það var geymt að taka afstöðu. Annað mjög alvarlegt sem gerðist er að ekki voru haldnir ríkisstjórnarfundir sem þýðir að Alþingi gat ekki rækt eftirlitshlutverk sitt. Við fengum ekki upplýsingar, þessu var öllu haldið leyndu. Og jafnvel í tveggja manna tali. Meira að segja ráðherraábyrgðarkeðjan var slitin. Að mínu mati var þetta með því alvarlegra vegna þess að lýðræðisgrundvelli þjóðskipulags okkar var (Forseti hringir.) riðlað.