Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 27. september 2010, kl. 18:25:57 (0)


138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég virði fullkomlega sjónarmið og skoðanir hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar í þessu og lofa að verða ekki óvinur hans að lokinni atkvæðagreiðslunni.

Það sem hann minnist á er auðvitað eitt af því sem við þurfum að horfast í augu við á hverjum degi og höfum gert í tvö ár. Það er auðvitað rétt að Alþingi brást líka og hafi stofnanir brugðist var Alþingi ein af þeim stofnunum. Sú stofnun var að vísu að meiri hluta skipuð þingmönnum á vegum þeirrar stjórnar sem hér sat, þar sem sátu forustumenn og leiðtogar þeirra þingmanna sem hana studdu. Kannski brást stjórnarandstaðan líka að vera ekki nógu glögg að krefja ráðherrana svara.

Almennt er þetta þannig að það má finna ábyrgð í öllu, gjörvöllu nánast, íslenska samfélaginu. Ég get nú undantekið nokkra hópa af þeim sem standa höllustum fæti og eru á jaðri samfélagsins, en það var auðvitað þannig að almenningur tók þátt í þessu góðæri gagnrýnislítið og kaus yfir sig þessa stjórn hvað eftir annað. Auðvitað er það þannig að bankarnir bera mesta ábyrgð og síðan getum við talað um forustumenn í fyrirtækjum, forustumenn í stjórnmálaflokkum og hvarvetna í samfélaginu en þessi almenna ábyrgð má ekki trufla okkur í því að finna þá og það sem skipti mestu máli. Ég held að „það“ sem skipti mestu máli hafi verið annars vegar stjórnmálakúltúrinn á Íslandi, lélegur stjórnmálakúltúr á Íslandi, og hins vegar sú villta frjálshyggjustefna sem Sjálfstæðisflokkurinn rak hér, og ég held að „þeir“ sem skiptu mestu máli hafi verið þeir sem ég var að tala um áðan, fyrir utan auðvitað bankamennina og viðskiptajöfrana sem við náum ekki í, annars vegar þeir sem stóðu fyrir þessu máli og ég skal nefna þá með nafni, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sem voru foringjar í þeirri ríkisstjórn sem hefði getað stöðvað þetta, og hins vegar verkstjórarnir, a.m.k. verkstjórinn í þeirri ríkisstjórn sem var á vakt þegar hrunið varð.