Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 16:34:28 (0)


138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þeirri umræðu sem nú er að enda komin hefur mér þótt oft og tíðum að sá misskilningur væri á ferðinni að ákærur og málsmeðferð fyrir landsdómi væri á einhvern hátt nauðsynlegur hluti pólitísks uppgjörs eftir bankahrunið. Þetta er grundvallarmisskilningur. Málið er það að hér stöndum við einvörðungu frammi fyrir þeirri spurningu hvort nægar forsendur séu komnar fram til að réttlætanlegt sé að höfða refsimál á hendur tilteknum einstaklingum. Það kann að vera að sumum þingmönnum þyki rétt að færa pólitíska baráttu og pólitískt uppgjör í klæði refsimáls. Það finnst mér ekki og því segi ég nei.