Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 14:46:02 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi tekjur sveitarfélaganna vil ég leggja á það áherslu að samvinna ríkisins, sveitarfélaga og fyrirtækja er nauðsynleg til að við komum okkur hratt og vel upp úr kreppunni. Tekjumöguleikar þeirra eru sennilega misjafnir eftir landsvæðum. Sum búa verr en önnur en fram kom um daginn á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga að sveitarfélög hafi tekið mjög vel á kreppunni. Viðbrögð þeirra eru góð og staðan er þokkaleg miðað við það ástand sem við gætum haldið að væri þar. En til að koma böndum á opinber útgjöld þurfa ríkið og sveitarfélögin að vinna vel saman og sparnaður á einum stað má ekki koma niður á kostnaði hjá öðrum.