Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 15:19:41 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Engin ríkisstjórn er öfundsverð af að leggja fram fjárlög sem kalla eftir svo miklum niðurskurði. Með því að lesa sig í gegnum þetta frumvarp fyllist maður hryggð vegna þess að tillögur að niðurskurði eru svo fjarri þeirri vinstri stefnu og því norræna velferðarkerfi sem ég er viss um að þau sem tala fyrir þessu frumvarpi voru flest kosin til að standa vörð um.

Í stefnuskrá Hreyfingarinnar er lagt til að halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þá leggjum við jafnframt til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á landinu. Ljóst er að sá harkalegi niðurskurður sem hér er boðaður er að forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Nú förum við í vegferð niðurskurðar sem við í Hreyfingunni mótmælum harðlega. Við mótmælum því að skera eigi velferðarkerfið, menntakerfið og heilbrigðiskerfið niður. Þetta er upphafið að endalokunum, svo ég bendi umbúðalaust á skrattann á veggnum. Þetta er upphafið að einhverju sem ekki verður hægt að laga. Við okkur mun blasa allt annað samfélag en flestir landsmenn kjósa að búa við ef við höldum áfram á þessari vegferð.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það verður að draga saman seglin en það verður að draga þau saman annars staðar en hjá grunnstoðum samfélagsins. Reynsla annarra landa er einmitt sú að þegar skorið er niður hjá þessum stoðum er skaðinn til langframa óbætanlegur þó að hægt sé að blóðmjólka sjúklinga, gamalmenni og öryrkja um stund. Það eru til aðrar lausnir og ég skora á alla flokka að sammælast um að sleppa hreinlega félags- og tryggingamálum, heilbrigðismálum sem og menntamálum við niðurskurðarhnífinn. Síðan þurfum við að sannfæra landsmenn um að það sé skárra að hafa aðeins minni ráðstöfunartekjur til skamms tíma en að þeir sem nú þegar lifa langt undir fátæktarmörkum þurfi að búa við enn krappari kjör.

Ég tek undir yfirlýsingu Öryrkjabandalagsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Álögur á öryrkja jukust í „góðærinu“ vegna heilbrigðismála, t.d. jókst lyfja- og lækniskostnaður. Auk þess fylgdi lífeyrir ekki verðþróun að fullu. Um síðustu áramót voru lög frá 1997, sem áttu að tryggja að lífeyrir hækkaði sem svaraði kjarasamningum eða framfærsluvísitölu, tekin úr sambandi. Aðeins lítill hluti lífeyrisþega fékk þá hækkun sem lögin sögðu til um.“

Það hlýtur að vera til önnur leið en að seilast í vasa ömmu minnar til að geta borgað skuldir manna sem frægur maður kallaði óreiðumenn. Það hlýtur að vera til önnur leið við að mæta hallanum á ríkisfjármálum en að skerða heilsugæslu og réttindi sjúklinga. Það hlýtur að vera til önnur leið en að skera niður hjá Barnaverndarstofu, sem nú þegar fær helmingi fleiri tilkynningar um vanrækslu og illa meðferð á börnum. Það hlýtur að vera til önnur leið við að mæta halla ríkissjóðs en að skerða menntun og lífsgæði barnanna okkar. Því skora ég á alla þingmenn allra flokka að leggja til hliðar flokkslínur og skoða allar aðrar leiðir en niðurskurð í áðurnefndum málaflokkum.