Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 15:40:42 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hafði falleg orð um að nauðsynlegt væri að koma á samstöðu í þinginu í þeim verkum sem nú eru fram undan. Ég skal ekki draga úr því og ekki hefur staðið á stjórnarandstöðunni að rétta ríkisstjórninni hjálparhönd ef á hefur þurft að halda. Mér sýnist þó verkefni hv. þingmanns vera að reyna að leysa úr innanmeinum í þessari ríkisstjórn þar sem samstöðuleysið þar virðist vera með miklum eindæmum. Ég beini því til þingmannsins að byrja heima hjá sér áður en hann fer að hvetja okkur áfram, þótt við höfum vissulega litið svo á að nauðsynlegt sé að hjálpa þessari máttlausu ríkisstjórn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að nú er stöðugleikasáttmálinn kominn í öndunarvél, hvernig hann telji að hægt sé að leggja 40 milljarða í auknum sköttum á einstaklinga. Hvaða skattaáform eru þetta sem um er að ræða? Nú upplýsir hv. þingmaður að honum lítist ekkert á hátekjuskatta á millitekjufólk. Það liggur fyrir að það verða ekki lagðir 40 milljarðar á heimilin í landinu — þeir skattar verða ekki auknir um 39% án þess að það lendi kirfilega á hverju einasta heimili. Mér finnst með miklum ólíkindum að í þessum frumvarpsdrögum komi svona hugmyndir fram gersamlega óútfærðar. Það er náttúrlega alls ekki hægt — og ég er ánægð með að hæstv. fjármálaráðherra sé hér — að halda svona á málunum.

Mig langar til að vita hvaða áform eru uppi um þessa skattlagningu og hvernig menn sjá fyrir sér að þetta gangi fyrir sig. Jafnframt langar mig til að vita hvaða sjónarmið hv. þingmaður hefur uppi um það þegar á að hækka bensíngjald og áfengisgjald um 10% um áramótin og hleypa því beint út í verðlagið, hvort ekki sé svolítið mikið í lagt fyrir þessi sömu heimili og fjölskyldur sem eiga ofan á þennan 40 milljarða skatt að borga þann skatt til viðbótar. Ég veit ekki hvernig menn ætla sér að koma atvinnulífi og starfi í þessu þjóðfélagi í gang með svona furðulegum hugmyndum.