Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 15:46:14 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:46]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég segi er fáránlegt eða furðulegar hugmyndir. Svo má vel vera en ástandið er líka með þeim hætti að þessi tvö orð eiga vel við. Ástandið er þannig að við þurfum að leiðrétta samfélagið. Ég tel að hv. þm. Ólöf Nordal þurfi að hafa það í huga og þegar kemur að aukinni skattheimtu þá munum við leiðrétta samfélagið. Það er t.d. óþolandi að mínu viti að 1% ríkasti partur landsins sem átti 4% þjóðarauðsins fyrir fáeinum árum átti 20% af honum skömmu fyrir hrun. Það er óþolandi. Það er jafnframt óþolandi að stór hluti auðugasta fólksins í landinu borgi jafnvel ekkert útsvar en búi samt í sveitarfélögum þar sem það þiggur skólaþjónustu, vegaþjónustu og annað sem ríkið og sveitarfélögin borga. Þetta þurfum við að leiðrétta (Forseti hringir.) og það gerum við m.a. með skattheimtu og hún mun koma við fólk. Við þurfum ekki að fara í grafgötur með það að kreppan mun bitna á fólki og fyrirtækjum.