Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 16:42:19 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar í málinu og ég tel það til fyrirmyndar að ráðherra komi hér upp og skýri sinn kafla í fjárlögunum, ég þakka kærlega fyrir það.

Ég óska eftir því að ráðherrann svari nokkrum spurningum varðandi hugmyndir um að fækka bæði lögreglustjórum og sýslumönnum. Mig langar að vita hvaða útreikningar liggja að baki því að fækka lögregluumdæmum, hvaða hagræðing er í því fólgin og hvernig sú vinna hafi farið fram gagnvart fjárhagshliðinni. Jafnframt langar mig að fá svar við sömu spurningu gagnvart sýslumönnunum, hvernig sú vinna var unnin gagnvart þeim fjármunum sem þar er um að tefla.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra að hún talaði um að einhverjir ætluðu að taka verkefnið af sýslumannsembættunum. Er þar átt við umboð Tryggingastofnunar eða er þar átt við einhverja fleiri þætti sem er verið að reyna að taka úr þessum mikilvægu embættum?