Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 17:23:57 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það kemur á óvart að hann telji að sjálfstæðismenn hafi ekki haft mikinn áhuga á velferðarkerfinu. Okkur sjálfstæðismönnum er kennt um allt sem miður hefur farið síðustu 18 árin en það hlýtur að þýða að allt sem var gott síðustu 18 árin sé okkur að þakka. Við höfum velferðarþjónustu sem er þess eðlis að aðrar þjóðir hafa öfundað okkur af því, af ástæðu. Við skildum við heilbrigðismálin í betra ástandi en þegar við tókum við þeim. Við styttum biðlista og biðtíma, náðum niður lyfjakostnaði, náðum tökum á rekstri stofnana og ég gæti farið yfir þetta í löngu máli. Við þekkjum þessa byltingu sem varð í mennta- og félagsmálunum og allt þetta gerðum við í góðri samvinnu við aðra flokka. Ég veit ekki til þess að sjálfstæðismenn hafi síðustu 80 árin haft neitt annað en mjög mikinn áhuga á velferð okkar Íslendinga.

Ég vísaði af ástæðu í stjórnendur og helstu sérfræðinga í heilbrigðismálum þegar ég talaði um flatan niðurskurð. Látum því vera hvað ég segi, ég vísa bara í það sem þessir færustu sérfræðingar segja. Þetta eru ekki sérfræðingar sem eru alla daga að gagnrýna stjórnvöld, því fer fjarri.

Ég held að enginn hafi komið með betri útlistanir á því hvernig við ættum að ná sparnaði og halda uppi þjónustustiginu heldur en sá sem hér stendur. Í síðustu ríkisstjórn sem ég var í, eða þarsíðustu, náðist góð sátt á milli ríkisstjórnarflokkanna um að fara í aðgerðir sem miðuðu að því að nýta þá aðstöðu og fjármuni sem eru til staðar eins vel eins og mögulegt er. Það þýðir að á höfuðborgarsvæðinu sameinuðum við skurðstofur og á landsbyggðinni sameinuðum við stofnanir til þess að spara í yfirstjórn (Forseti hringir.) en reyna að halda uppi þjónustustiginu. Í seinna andsvari get ég farið betur í þetta ef mér gefst tækifæri til.