Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 17:33:19 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur ekkert svikið af því sem til hennar friðar heyrir í hinum svonefnda stöðugleikasáttmála. Að því hefur verið unnið mjög markvisst og fundað reglulega með aðilum sáttmálans og farið yfir framvindu mála á hverju sviði reglulega samkvæmt listum þar sem framvindan á hverjum tíma er metin. (Gripið fram í: Það eru ekki allir sammála þessu.)

Það er vissulega alveg rétt að við hefðum gjarnan viljað vera komin lengra áleiðis með ýmsa hluti. Það vita það allir í hvað sumarið fór og hvaða mál hefur þvælst þar mest fyrir okkur og hvaða kostnað það er farið að hafa fyrir þjóðarbúið, nema þá kannski Sjálfstæðisflokkurinn, sem virðist lifa á einhverri annarri plánetu í þessum efnum.

Ég hef það kannski umfram hv. þm. að ég er búinn að hlusta á allar ræður sjálfstæðismanna hérna í dag. Ég er búinn að hlusta á suma þeirra tala gegn niðurskurði. Ég er búinn að hlusta á þá tala gegn samdrætti í samgönguframkvæmdum. Ég er búinn að hlusta á suma tala gegn skattahækkunum á einstaklinga. Og ég er búinn að hlusta á þá alla tala sérstaklega gegn því að stóriðjufyrirtæki (Forseti hringir.) leggi neitt af mörkum. Þá fer nú að verða spurningin: Hvernig hefur Sjálfstæðisflokkurinn hugsað sér að gera þetta, ef hvorki má (Forseti hringir.) draga úr útgjöldum né afla tekna?