Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 17:49:53 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þm. Helgi Hjörvar óskar eftir því og mun vinna að því að koma hjólum atvinnulífsins af stað, því ekki veitir af. Hins vegar svaraði hann ekki þeirri spurningu hvernig það skuli gert. Í dag ríkir mjög mikil óvissa. Hún hefur verið hér í nokkra mánuði, en ekki hafa ákvarðanir ráðherra ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur verið til að hjálpa til. Þar nefni ég sérstaklega ákvörðun umhverfisráðherra varðandi Helguvík og ákvörðun iðnaðarráðherra varðandi Bakka.

Síðan tel ég einfaldlega ekki ábyrgt að henda fram þessum skattahækkanapakka með orku- og umhverfissköttum með þessu dæmi sem fylgdi sem ráðherrar sumir hverjir telja vera algjörlega út úr kú. Það er einfaldlega ekki ábyrgt að gera þetta, vegna þess að það teflir öllu í óvissu. Þeir aðilar sem hafa verið að skoða það og hafa mikinn áhuga á að koma hingað horfa auðvitað á þetta og segja: Íslenskum stjórnvöldum er virkilega ekki treystandi.