Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 18:05:11 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um skattlagningu má segja eins og ég nefndi áðan að auðvitað eru viss þolmörk fyrir því sem hægt er að leggja á heimilin í landinu, á fjölskyldurnar, vinnandi fólk sem glímir við mikla skuldabyrði og rýrnandi kaupmátt. Einn vandinn við að skattleggja í niðursveiflu er að tekjustraumarnir sem verið er að skattleggja fara flestir minnkandi. Menn hækka neysluskatta á tilteknar vörur en neyslan á vörunum dregst saman og þá fæst ekki sú tekjuöflun sem menn ætluðu. Sama gerist með tekjurnar, tekjuskattur er hækkaður en tekjur fólksins í landinu minnka.

Sem betur fer eru tekjustraumar hér sem eru mjög að vaxa. Það eru svið í samfélaginu þar sem tekjur hafa vaxið mjög mikið vegna breyttra hagstærða í samfélaginu. Það er ekki óeðlilegt að til þess sé horft á erfiðum tímum sem þessum að þeir sem nú njóta þeirra auknu tekna (Forseti hringir.) leggi nokkuð meira af mörkum.