Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 18:29:13 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara síðustu spurningunni þá var ákvörðun um undirbúning að þessari vinnu tekin á grundvelli hugmyndafræði um að það væri mjög mikilvægt að samþætta þessa þjónustu og það væri öllum til góðs. Við munum síðan útfæra nánar þessa aðferðafræði.

Varðandi spurninguna um það hvort meiningin væri að fjölga útibúum Vinnumálastofnunar þá er hugsunin sú að fjöldi útibúa stofnunar af þessum toga mundi vera sá sami og fjöldi þeirra svæða sem verið væri að vinna eftir í svæðaskiptingu landsins. Þannig að það mundi falla í eitt horf og síðan yrði með almennu samstarfi við sveitarfélögin komið fyrir samstarfi við þau um að veita þjónustu í hverju og einu sveitarfélagi. Fólk gæti þá komið í félagsþjónustuna í sínu sveitarfélagi og fengið fullnaðarupplýsingar og fullnaðarþjónustu varðandi alla þessa þætti á einum stað.

Það sem einfaldast með þessu er t.d. flutningur á málaflokki aldraðra og fatlaðra yfir til sveitarfélaga. Sveitarfélögin yrðu komin út í það lykilhlutverk alls staðar um landið að vera endastöðin fyrir velferðarþjónustuna, óháð því hvort ríkið borgaði hana eða sveitarfélögin. Þetta er mjög mikilvægt því þá er svo einfalt að færa þessi verkefni yfir til sveitarfélaga. Ég held að við eigum að fara að þeim ráðum að láta aldrei góða kreppu fram hjá okkur fara, eins og vitur maður sagði, og reyna að nýta góða kreppu til að breyta hlutum sem við höfum ekki treyst okkur til að breyta áður. Ég er algerlega sannfærður um að nærþjónusta á borð við þjónustu við fatlaða og þjónustu við aldraða á heima hjá sveitarfélögum og við þurfum að færa hana með þessum hætti nær fólkinu. Úti um land hefur þetta staðið í vegi fyrir tilfærslu til sveitarfélaganna á þessari þjónustu, bæði óvissan um svæðaskiptinguna, svæðamörkin og hins vegar líka hvernig á að fara með þjónustuna í minni sveitarfélögum. Sú hugmyndafræði sem við erum að leggja upp núna mundi geta brúað þetta bil þar sem væru þá svæðisstöðvar sem síðan þjónuðu áfram eins og fínna háræðanet út í minni sveitarfélög.