Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 18:46:13 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það þannig að samgönguáætlun er ekkert ónæm fyrir niðurskurði á erfiðleikatímum eins og núna er, ég geri mér mætavel grein fyrir því og ég er ekkert að gagnrýna að fé til samgöngumála sé skorið niður eins og til annarra mála. En fyrr má nú rota en dauðrota. Eins og ég les út úr þessum tölum og í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði að núna væru í gangi allmörg stór verk, spyr ég hæstv. ráðherra aftur hvort það sé ekki réttur skilningur minn að tölur um nýframkvæmdir upp á tæpa 9 milljarða kr. þýði á mæltu máli að á næsta ári verði engin ný verkefni boðin út sem ná máli, verði fjárlagafrumvarpið samþykkt að þessu leytinu, að eingöngu þau verkefni sem nú þegar eru í gangi muni halda áfram á næsta ári.

Í annan stað spurði ég líka hæstv. ráðherra tveggja spurninga sem ég vil fá svar við. Það er í fyrsta lagi: Hvenær má vænta þess að einhverjar af þessum lífeyrissjóðaframkvæmdum fari af stað? Má búast við að einhverjar þeirra fari af stað núna í haust? Hvað gerir hæstv. ráðherra t.d. ráð fyrir því að margar þeirra fari af stað á næsta ári? Þriðja spurning mín var svona, sem er náttúrlega mjög einfalt að svara: Eru þessar lífeyrissjóðaframkvæmdir sem ég var að vísa til ekki allar byggðar á því að þær eigi að standa undir sér með veggjöldum, ekki skuggagjöldum heldur veggjöldum, þannig að það séu notendurnir, þeir sem fara um vegina sem munu borga þessar framkvæmdir?