Fjárlög 2010

Fimmtudaginn 08. október 2009, kl. 18:48:04 (0)


138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Fyrst, virðulegi forseti, sem svar við spurningunni: Hvað verður á næsta ári? Við vitum það ekki en talan sem hv. þingmaður ræddi um er það sem við höfum áætlað að við höfum úr að spila á næsta ári. Það fer eftir uppgjöri og þá ræður verðbólga miklu. Það fer líka eftir lokauppgjöri verka. Mörg verk eru að klárast og þá kemur til lokakostnaðar, heildaruppgjörs, og þá sjáum við hvað það er. Það er því miður oft þannig að sum verk kosta meira en ætlað var og þannig er það með nokkur verk sem við vitum um.

Hitt varðandi það hvenær einkaframkvæmdaverk geta hafist. Vonandi sem allra fyrst. Samgönguráðherra bíður spenntur eftir niðurstöðu í þeim viðræðum sem eru í gangi til að hleypa verkum af stað. (EKG: Á þessu ári?) Vonandi á þessu ári já, vonandi á þessu ári stígum við fyrstu skref í þessu efni. Við erum í raun og veru tilbúin með fyrsta kaflann í Suðurlandsvegi sem var næsta útboð þegar við stoppuðum. Hann gæti fallið inn í einkaframkvæmdaverk ef okkur tækist að láta það smella svoleiðis saman. Þar er um 8 km að ræða. Við vitum um umræðuna um Vesturlandsveg, við vitum um umræðuna um Vaðlaheiðargöng. Vaðlaheiðargöng eru tilbúin, komin lengra vegna þess að fyrirtæki fyrir norðan hafa unnið að þessum undirbúningi í fimm, sex ár og þau gögn eru til. Samgöngumiðstöð í Reykjavík og stækkun flugstöðvar á Akureyri hafa líka verið ræddar í þessu sambandi. Ég veit ekki hvenær málum lýkur gagnvart samgöngumiðstöð í Reykjavík en Akureyri höfum við líka verið að skoða í framhaldi af lengingu flugvallarins. Svarið við þessu, virðulegi forseti, er því að ég vildi óska þess að ég gæti sagt að þetta gæti gerst á næstu dögum og að því er unnið.

Hins vegar svo í lokin með veggjöldin. Jú, það hefur komið þannig fram hjá lífeyrissjóðunum að þeir hafa alltaf talað um það að þessi einkavæðingarverk mundu endurgreiðast með veggjöldum eða notendagjöldum. Það er alveg hárrétt. Það er sama vinna og sama hugsun sem var í gangi í ríkisstjórn sem við sátum í, ég og hv. þingmaður. Þá vorum við byrjuð að skoða hvernig skyldi útfæra einkaframkvæmdaverk en það hefur alltaf legið fyrir, virðulegi forseti, í öllum skýrslum sem hafa verið skrifaðar að endurgreiðsla yrði með einhvers konar veggjöldum.