Uppgjör á eignum Landsbankans og Icesave

Þriðjudaginn 13. október 2009, kl. 13:42:00 (0)


138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

uppgjör á eignum Landsbankans og Icesave.

[13:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er allt satt og rétt að þeim mun meira sem heimtist upp í kröfur Landsbankans þeim mun meira verður til skiptanna til að koma á móti skuldbindingum vegna Icesave-málsins. En menn mega ekki missa sjónar af því að meginþorri skuldbindinga ríkisins er vaxtakostnaður í þessu máli. Þannig var það t.d. í frumvarpinu sem ríkisstjórnin lagði sjálf fram í Icesave-málinu í sumar. Þar var stillt upp töflu þar sem dæmi var tekið um hver skuldbinding ríkisins yrði árið 2016 ef 90% heimtust upp í forgangskröfurnar. Þar kemur fram að skuldbindingin yrðu 309 milljarðar.

Ég vil vekja athygli á því að það skiptir ekki öllu þó að það hafi auðvitað jákvæð áhrif að 80% eða 90% endurheimtist upp í eignirnar vegna þess að skuldbindingin sem við munum fjalla um hér og höfum verið með til umfjöllunar liggur öll í vaxtakostnaðinum. En varðandi erlendu lántökurnar (Forseti hringir.) vekur það auðvitað athygli að menn telja vera svigrúm til frekari erlendrar lántöku.