Fjáraukalög 2009

Þriðjudaginn 13. október 2009, kl. 14:45:25 (0)


138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessa síðustu athugasemd hæstv. fjármálaráðherra þá er þetta einmitt málið. Tónlistarhúsið rís niðri við höfn og það sjá allir. Samt virðist enginn eiga að borga það. Það er ekki orð um það í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það er verið að plata skattgreiðendur framtíðarinnar, börnin okkar, með þessum hætti og það er bannað samkvæmt stjórnarskrá. Þess vegna er þetta ákvæði í 41. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi frú forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Einmitt til þess að við getum ekki skuldbundið framtíðarkynslóðir Íslendinga með þessum hætti.

Það sama á við um Icesave-málið. Það er búið að skrifa undir, búið að samþykkja lög og í fjárlögum eða fjáraukalögum á að koma fram að eitthvað sé að gerast þannig að sú skuldbinding detti ekki ofan á þjóðina eins og tónlistarhúsið mun gera. Þó ætla ég ekki að líkja því saman því tónlistarhúsið er smá sykurmoli miðað við það sem Icesave gæti orðið en þó þarf það ekki að vera. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða afstöðu sína og ég mun leggja til við hv. fjárlaganefnd að hún breyti fjárlögunum og komi fram með þessar skuldbindingar og fleiri. Þær eru margar, duldar og faldar skuldbindingar ríkissjóðs í fjárlögunum sem hvergi koma fram.