Fjáraukalög 2009

Þriðjudaginn 13. október 2009, kl. 14:49:44 (0)


138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferðina áðan um þetta frumvarp til fjáraukalaga sem við fjöllum um. Hann fór nokkuð ítarlega yfir helstu staðreyndir sem þar koma fram, þ.e. að tekjurnar koma til með að hækka upp í 407 milljarða sem voru reiknaðar um 402 milljarðar og gjöldin hækka um 27 milljarða og fara í 582 milljarða. Niðurstaðan verður sú að hallinn eykst um 22,4 milljarða.

Helstu gjaldabreytingarnar í frumvarpinu eru í stórum dráttum þrjár, þ.e. nýjar og breyttar útgjaldaskuldbindingar auka fjárútgjöld um 42 milljarða, lækkun útgjalda vegna nokkurra málefna um 6 milljarða og ráðstafanir ríkisstjórnarinnar um að draga úr útgjöldum um 9,2 milljarða. Síðan eru nokkur atriði sem lækka útgjöldin helst og það eru í fyrsta lagi hækkuð framlög í Atvinnuleysistryggingarsjóð upp á 7,7 milljarða, vaxtabætur hækka um 2,3 milljarða og Ríkisútvarpið um 0,6 milljarða. Mestu lækkanirnar í frumvarpinu eru lífeyristryggingar upp á 6 milljarða, vegagerð upp á 3,7 milljarða, vaxtabætur upp á 2,3 milljarða og greiðslur vegna búvörusamninga 1,7 milljarðar.

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara beint ofan í einstaka liði í þessu því að ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að átta mig á sumu hér. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að hann sagði í ræðu sinni áðan að það ætti að treysta fjárlaganefndina, breyta vinnubrögðum og það mætti ekki rétta af rekstrarhalla inni í frumvarpinu. Við vorum á fundi í fjárlaganefnd í morgun og þá tók ég eftir að á bls. 156 er verið að gefa Vatnajökulsþjóðgarði leyfi til þess að breyta 45 millj. kr. fjárveitingu sem átti að fara í fjárfestingu eða að byggja upp gestastofur, sem stofnkostnaðarverkefni — því er breytt og millifært á rekstrarlið svo fjármagna megi rekstrarútgjöld. Þá er maður dálítið hugsi yfir því hvort mikið sé um svona Konna og Baldur í þessu, hvernig þetta virkar allt saman.

Á bls. 158 kemur reyndar líka annað fram í sambandi við vaxtagjöldin og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það. Vaxtagjöld vegna endurfjármögnunar bankanna hækka um tæpa 39 milljarða, fara úr 5,2 í 44,2 milljarða. Getur hann gefið mér skýringar á þessu? Eins lækkuðu vaxtagjöld vegna veð- og daglána vegna Seðlabanka Íslands um 24,2 milljarða, úr 31 milljarði í 7,1 milljarð. Ég átta mig ekki alveg á hvernig á þessu stendur.

Síðan langar mig að beina fleiri spurningum til ráðherrans. Í fyrsta lagi hvort ráðherrann hafi rætt við sveitarfélögin í landinu eftir að tryggingagjaldinu var breytt, hvort einhverjar viðræður hafi átt sér stað milli fjármálaráðuneytisins og sveitarfélaganna um leiðréttingu á þeim gjöldum sem voru færð frá sveitarfélögum til ríkis og þá hve mikil þau eru sem koma í hlut sveitarfélaganna. Þegar þetta var kynnt, bandormurinn, var rætt um að fjármálaráðuneytið mundi taka upp viðræður við sveitarfélögin um hvernig þetta kæmi niður. Eins þegar menn máttu taka út séreignarlífeyrissparnaðinn komu líka ákveðnar tekjur til sveitarfélaganna í formi útsvars, hvort þetta hafi eitthvað verið rætt.

Í andsvari hæstv. ráðherra áðan kom fram í sambandi við endurfjármögnun bankanna að þær eignir sem stóð til að færa frá Seðlabankanum vegna þessa hefðu ekki staðið undir væntingum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða eignir þetta eru sem stóð til að færa og nota við endurfjármögnun bankanna en stóðu ekki undir þessum væntingum.

Ef ég man rétt kemur líka fram í stöðugleikasáttmálanum stuðningur við uppbyggingu í Helguvík vegna hafnarframkvæmda en ég sá það ekki í fljótu bragði. Það getur vel verið að mér hafi sést yfir það en mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki örugglega þarna inni og ef ekki, hvort ekki verði staðið við það.

Þá er ég búinn að fara ofan í helstu tölur og efnislega yfir frumvarpið og menn munu væntanlega einnig fara yfir þetta við 2. umr. Mig langar þó að taka upp vinnubrögðin sem við notum á Alþingi. Ég ræddi það þegar við fórum í fjáraukann að við þyrftum að breyta vinnubrögðum Alþingis við fjárlagagerðina. Við erum ekki búnir að samþykkja ríkisreikning fyrir árið 2008, höfum ekki fjallað um hann í fjárlaganefnd og ekki fengið eina einustu skýrslu frá nokkurri stofnun ríkisins til fjárlaganefndar á þessu ári. Ég velti því upp af mikilli vinsemd hvort fjármálaráðherrann sé ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd fái mun sterkara eftirlitshlutverk en hún hefur. Hún hefur náttúrlega mikið eftirlitshlutverk en að því verði þannig breytt að fjárlaganefnd geti unnið markvissar og betur að því að fylgjast með framkvæmd fjárlaga gagnvart framkvæmdarvaldinu og eins gagnvart stofnunum. Það hlýtur að vera okkar markmið.

Ég ræði hér annars vegar vinnubrögð og framkvæmd fjárlaga og hins vegar eftirlitsþátt fjárlaganefndar. Ég held í raun og veru að ef við spólum til baka sjáum við kannski af reynslunni hvað gerðist núna í aðdraganda hrunsins og hvernig viðbrögðin voru hjá sveitarfélögunum. Þau settu miklu fyrr af stað sína viðbragðsáætlun og brugðust miklu fyrr við. Auðvitað voru miklir erfiðleikar, við fórum í gegnum kosningar og annað, en kerfið sem slíkt hefði átt að virka vegna þess að það var búið að samþykkja fjárlögin. Menn gátu farið mikið markvissara í vinnuna held ég.

Starfsmenn fjárlaganefndar og fjárlaganefnd hefur engan aðgang að upplýsingum innan úr kerfinu. Þetta er allt til í kerfinu í bókhaldinu hjá stofnunum en við höfum engan aðgang að þessu. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri æskilegt að reyna að virkja fjárlaganefndina meira með því að hafa aðhald að þessu. Eins og þetta er í dag eru ráðuneytin með sína fjármálastjóra og síðan eru fjármálastjórar í mörgum stofnunum fyrir sig, hverri einustu liggur við, en samt er þetta svona. Er þetta ekki eitthvað sem við verðum að breyta einmitt á þessum tímum þegar við gerum miklar kröfur um að menn standist fjárlög og fjármagni ekki rekstrarhalla? Þá er mjög mikilvægt að við virkjum þennan eftirlitsþátt nefndarinnar. Ég er alveg fullviss um það og hef rætt það óformlega í nefndinni að allir eru sammála um að við þurfum gera þetta. Það þarf að breyta þessu.

Síðan þarf líka að gera annað að mínu viti. Við verðum að virkja eftirlitsþáttinn og láta forstöðumennina vita af því að við fylgjumst með þeim. Við eigum líka að nýta það áminningarkerfi sem er og ekki vera feimin við að beita áminningarkerfinu ef einhverjir óhæfir starfsmenn eiga að stýra fjármálum ákveðinna stofnana. Þá eru þeir ekki að vinna vinnuna sína. Margir gera þetta mjög vel en sumir komast kannski upp með það vegna þess að við erum of lin. Við þurfum að beita þessu, sérstaklega á þeim tímum sem núna eru. Það þarf aðhald og það þarf líka að vera þannig að ef menn fara ekki eftir því verði þeir látnir víkja. Það eru heimildir fyrir því að menn fái svokallað gult spjald og svo fái menn rauða spjaldið. Þetta þurfum við að virkja og ég þori næstum því að fullyrða, frú forseti, að ef við bara gæfum út að við mundum gera þetta svona yrði strax skárra aðhald. Það er mín bjargfasta trú. Eins og ég sagði áðan er mjög mikilvægt við þessar aðstæður sem við erum í núna að við gerum þetta til að koma skikki á málin. Eins verðum við að fá aðgang að þessu bókhaldskerfi til að geta fylgst með. Starfsmenn fjárlaganefndar ættu að geta fengið aðgang að þessu kerfi til að setja aðhald á stofnanirnar.

Ég held líka að það væri mjög skynsamlegt fyrir alla þingflokksformenn að ræða það að þeir fulltrúar sem sæti eiga í fjárlaganefnd ættu eingöngu að sitja í þeirri nefnd og sinna þessari skyldu sinni. Ég er ekki að segja að þeir geri það ekki en þetta yrði til að gera eftirlitskerfið hjá löggjafanum virkara gagnvart framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslunni. Ég held að það væri til mikilla bóta og þetta ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál okkar allra. Það skiptir engu máli hvar menn standa í pólitík með það en þessi vinnubrögð hafa verið svona mjög lengi og þessu þurfum við að breyta.

Á fundum fjárlaganefndar í morgun með stofnunum og ráðuneytunum ræddum við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 og síðan höfðum við hugsanlega 3–5 mínútur til að fara yfir fjáraukalögin í restina. Við erum búin að hitta þrjú ráðuneyti af ellefu þannig að ég held að menn ættu að breyta þessum vinnubrögðum. Ég varpa þessu fram í vinsemd, hvort menn vildu ekki taka höndum saman og virkja þetta á þennan hátt nú á erfiðum tímum.