Nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Fimmtudaginn 15. október 2009, kl. 12:11:36 (0)


138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framkomnar tillögur. Ólíkt síðasta dagskrárlið eru hér á ferðinni ýmsar raunhæfar hugmyndir í efnahagsmálum þótt þær hafi flestar komið fram áður. Ég vil sem formaður efnahags- og skattanefndar lýsa því yfir að þær verða auðvitað teknar til efnislegrar umfjöllunar í nefndinni og ég lýsi sérstaklega yfir að það er fullt tilefni til þess að skoða hugmyndir um skattlagningu á lífeyrisiðgjöldum og kalla fram í umfjölluninni í þinginu kosti og galla á þeim tillögum.

Ég skil efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins þannig að flokkurinn sé að kalla eftir endurskoðun á samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en engu að síður að við höldum áfram að starfa með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að uppbyggingu efnahagslífsins á Íslandi, að afstaða flokksins sé að til þess að skapa traust og trúverðugleika á alþjóðavettvangi og á fjármálamörkuðum skipti það okkur máli og sé ákjósanlegt að halda áfram samstarfi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fremur en slíta því. Ég vil einfaldlega inna hv. þingmann eftir því hvort þetta sé ekki réttur skilningur minn á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þess trúverðugleika sem slíkt samstarf geti haft í för með sér fyrir íslenska þjóð.