Vörumerki

Þriðjudaginn 20. október 2009, kl. 16:53:40 (0)


138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir framsögu hans.

Ég tel að þetta mál ættum við í viðskiptanefnd að geta unnið mjög hratt og vel. Við vorum búin að fá gesti og umsagnir um fyrra frumvarpið og það ætti að vera hægt að afgreiða mjög hratt aftur inn í þingið.

Ég hef hins vegar mikinn áhuga á að spyrja ráðherrann meira almennt út í það hvernig ráðuneytið fylgist með vinnu varðandi nýjar tilskipanir og gerðir hjá Evrópusambandinu, hvort það séu markviss samskipti við skrifstofur okkar í Brussel og hvort starfsmenn í ráðuneytinu fari reglulega eða fylgist með því efni sem er á vefnum. Bæði af því að mér sýnist að nú fari mjög mikil vinna bæði hjá framkvæmdastjórninni og innan Evrópuþingsins sem er breyting sem hefur verið að gerast á síðustu mánuðum og árum, þar sem Evrópuþingið hefur komið mun meira inn í vinnu varðandi lög hjá Evrópusambandinu.

Ég verð að segja að ég hef svolitlar áhyggjur af því að við vinnum ekki nógu markvisst í því að fylgjast með því hvað er að gerast innan Evrópusambandsins. Því hef ég mikinn áhuga á að heyra frá ráðherranum hvernig þessu er háttað núna og ef það er eitthvað sem hann sér fyrir sér að væri hægt að bæta.