138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi sparðatíning undrast ég þá ræðu sem hér kom varðandi það því að þátt Evrópusambandsins í Icesave-deilunni og þátt Evrópusambandsins og Evrópuþjóða, ekki síst Breta og Hollendinga, í að kúga Íslendinga til þess að greiða þessa skuld er vitanlega ekki hægt að skilja frá þessu máli. Það er flótti frá veruleikanum ef hv. þingmaður telur sig geta gert það, aðskilið Icesave og aðskilið Evrópusambandið frá því, það er ekki hægt. Það er óaðskiljanlegt.

Ég er hins vegar ósammála hv. þingmanni um að nú sé of seint að leggja á heiðina, algjörlega ósammála því að enn hefur ekki verið sýnt fram á nema með hótunum og hræðsluáróðri hvað hugsanlega gæti gerst ef við samþykkjum ekki þennan ólukkans samning. Það hefur ekkert annað komið fram. Það hefur ekki verið á látið annað reyna, hv. þingmaður. Ríkisstjórnin hefur ekki farið annað og spurt og kannað hvaða aðrir vegir eru færir í stöðunni. Trúir einhver því virkilega að vestrænar þjóðir muni kúga litla vestræna þjóð ef hún stendur ekki við afarkosti? Trúir því einhver virkilega? Það er svo fáránlegt að hugsa til þess.

Við eigum ekki að láta þetta yfir okkur ganga. Ég hvet þingmanninn til þess að láta ekki hugfallast í þessu gríðarlega stóra máli, að hugsa aftur sinn gang ef hann veltir því fyrir sér að samþykkja þetta því að það er ekki öll nótt úti enn, það er alveg klárt mál.

Það mun verða sýnt fram á það á næstu dögum að þessi samningur og það plagg sem er hér fyrir framan okkur er verra en það sem við þó nokkuð mörg greiddum atkvæði gegn á endanum. Auðvitað er ekki komið að því að greiða atkvæði um þetta. En ég vara við því að menn gæli við uppgjöf í þessu máli.