138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en þau svara nú ekki alveg öllu.

Einnig varðandi lagalega viðmiðið. Ég get ekki séð að þetta sé, svo ég noti orðalag hæstv. ráðherra, mikilsverður árangur þegar það segir hér skýrum orðum, og þetta er engin túlkun mín eða hártogun, á bls. 12:

„Af framangreindum heimildum leiðir að lagaleg skuldbinding íslenska ríkisins mun haldast óbreytt samkvæmt lánasamningunum, jafnvel þótt síðar yrði komist að þeirri niðurstöðu í dómsmáli að sú skuldbinding hafi ekki verið fyrir hendi í upphafi.“

Mér finnst þetta ekki vera þannig að staða okkar sé svakalega sterk. Hér segir svo til viðbótar:

„Hins vegar felst í þessum yfirlýsingum að íslenska ríkið mun eiga ríka kröfu til að fá stöðu sína sem ábyrgðaraðila endurskoðaða og að um hana verði fjallað á pólitískum vettvangi.“

Ég get ekki séð að verið sé að samþykkja fyrirvara Alþingis og ég óska eftir því að tekið verði saman minnisblað um þennan feril samskipta. Ég held að væri bara gott málsins vegna, vegna þess að við vorum farin að óska eftir þessu strax við 2. og 3. umr. í sumar að fá þetta allt saman frá upphafi til enda til þess að maður geti lagt á það mat hvort það sé í rauninni þannig, eins og hæstv. ráðherra heldur fram, að við eigum ekkert val. Ég vil sjá það og það getur vel verið að ég sannfærist. Það væri nú kannski eitthvað til vinnandi fyrir hæstv. ráðherra að taka myndarlega saman einhvern pakka. Ég vil sjá hvort hæstv. ráðherra hafi barist með kjafti og klóm fyrir okkar hagsmunum. Núna er ég ekki (Gripið fram í.) sannfærð. (Gripið fram í.) Nei, ég er ekki sannfærð um … (Gripið fram í.) Nei, ég var … (Forseti hringir.) Virðulegur forseti …

(Forseti (ÁRJ): Andsvörum er lokið, tímanum er lokið.)

Virðulegur forseti. Ég óska eftir að bera af mér sakir. Ég notaði aldrei orðið „landráð“ um hæstv. fjármálaráðherra.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill biðja hv. þingmenn að vera ekki með samræður við ræðumann í ræðustól.)