Tekjuskattur

Mánudaginn 02. nóvember 2009, kl. 16:45:00 (0)


138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[16:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að fá þessa spurningu vegna þess að þetta hefur auðvitað verið skoðað. Reyndar er það svo að ég hef rætt við forstjóra Kauphallarinnar um það hvort Kauphöllin gæti komið að þessu máli eða jafnvel á einhverjum almennari forsendum. Segja má að farin sé að mörgu leyti hliðstæð leið og var í gildi fyrir um einum til einum og hálfum áratug þegar mönnum bauðst almennur skattafsláttur gegn kaupum á hlutabréfum, sem væntanlega hefur þá verið í skráðum fyrirtækjum. Hér er valin sú leið að beina frádrættinum eingöngu að skráðum nýsköpunarfyrirtækjum, sem ég held að sé að mörgu leyti mjög freistandi og spennandi kostur og fróðlegt að sjá hvernig það reynist.

Það sem menn hafa þá á að byggja þegar þeir taka ákvarðanir um fjárfestingar sínar er sú vottun eða sú skráning sem fyrirtækin þurfa að hafa fengið frá Rannís áður en þau komast í þennan flokk fyrirtækja. Það er alveg athugunar virði að velta því fyrir sér hvort einhver skipulagðari farvegur fyrir fjárfestingar almennings á þessu sviði geti þurft að koma til, hvort sem sú leið lægi í gegnum Kauphöllina eða með einhverjum öðrum hætti. Reyndar er hlutabréfamarkaður ekki mjög virkur á Íslandi um þessar mundir og kannski einmitt gott að reyna að ýta við honum eða koma honum af stað akkúrat á þessu sviði. Ég vek líka athygli á því að lögaðilar geta sömuleiðis fjárfest þannig að almenningur og fyrirtæki geta fjárfest hlið við hlið í nýsköpunarfyrirtækjum sem uppfylla settar reglur. Síðan má að sjálfsögðu alltaf taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar ef menn sjá ástæðu til að betrumbæta framkvæmdina. Ég er alveg opinn fyrir skoðun á því hvort sem heldur það yrði gert strax í upphafi eða þegar einhver reynsla væri komin á framkvæmdina.