Ný samgöngumiðstöð í Reykjavík

Miðvikudaginn 04. nóvember 2009, kl. 15:41:23 (0)


138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina og taka upp þráðinn frá lokaorðum hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, að það væri þverpólitísk samstaða um að flytja völlinn frá höfuðborgarsvæðinu í áföngum. Ég verð að segja, frú forseti, að ef Reykjavíkurborg ætlar að vera höfuðborg Íslands og okkar hér verður flugvöllurinn að vera kyrr þarna. Ég tek algjörlega undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni að það er fáránleg hugmynd að setja það inn að ætla að færa flugvöllinn burtu. Þetta er bara grundvallar… (Gripið fram í.) Þetta er grundvallarskilyrði fyrir landsbyggðina og það fólk sem býr þar til að sækja alla opinbera þjónustu suður til Reykjavíkur, til snillinganna fyrir sunnan. Við þurfum að komast hingað, það er nú bara einu sinni þannig. Ef þeir ætla að flytja hann til Keflavíkur flytjum við bara höfuðborgina til Keflavíkur og stjórnsýsluna líka. Það er nú einu sinni svoleiðis.

Hæstv. ráðherra talar um að samstarfið sé gott, að þeir vinni hratt og allt það, lífeyrissjóðirnir séu tilbúnir að fjármagna og væntanlega þá selja sement (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Einar Kristinn sagði og þá langar mig að spyrja: Hvað telur hann langan tíma eftir þangað til niðurstaða liggur fyrir í málinu? (Forseti hringir.)