Staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans

Föstudaginn 06. nóvember 2009, kl. 13:57:52 (0)


138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[13:57]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Á Íslandi er það því miður svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður ríkjum. Sjóðurinn hefur í gegnum tíðina þvingað þau ríki sem hafa þegið svokallaða aðstoð hans til að fara í kreppudýpkandi aðgerðir, svo sem að viðhalda háum vöxtum sem knésetja fyrirtækin jafnt sem heimilin, fara í krappan og í raun allt of brattan niðurskurð í ríkisfjármálum og mikla skuldsetningu þjóðarbúsins vegna gjaldeyrisvarasjóðs sem má svo ekki nota. Hér hafa stýrivextir Seðlabankans haldist allt of háir allt of lengi og þeir eru að sliga bæði fyrirtækin og heimilin í landinu. Þetta sjá allir sem sjá vilja og hér er hrópað á breytingar.

Mér finnst grundvallaratriði að við Íslendingar tökum málin í okkar hendur og stýrum okkar efnahagsmálum sjálf, en fyrst við erum að þiggja þessa svokölluðu aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ekki úr vegi að skoða hvað hann hefur til málanna að leggja um þróun efnahagsmála hér á landi.

Samkvæmt nýútkominni skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland og íslenskt efnahagslíf er búist við því að verðbólga verði meiri en reiknað var með vegna aukinna skatta á vörur og þjónustu, aukinna skatta sem leiða svo beinlínis til hækkunar á öllum verðtryggðum skuldum heimilanna og fyrirtækjanna. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga 2009 hafa þessir skattar sem voru settir á í skjóli nætur, m.a. á eldsneyti, tóbak, sykur og áfengi, ekki skilað sér í ríkiskassann. Þeir hafa sem sagt bara hækkað lánin okkar.

Frú forseti. Í gær mæltu hv. þingmenn Framsóknarflokksins fyrir afskaplega áhugaverðu frumvarpi þar sem lagt er til að sett verði þak á verðtrygginguna. Nái þetta frumvarp fram að ganga felur það í sér miklar úrbætur fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Enginn einasti þingmaður Samfylkingarinnar var viðstaddur eða tók þátt í þeirri umræðu og aðeins einn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Er ekki kominn tími til að standa í lappirnar og skapa lífvænlegt umhverfi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Eigum við ekki að reyna að læra af mistökum þeirra fjölmörgu landa sem hafa farið flatt á því að fylgja ráðleggingum AGS í blindni? Við fáum enga sérmeðferð þar. Við verðum að gera þetta sjálf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)