Staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans

Föstudaginn 06. nóvember 2009, kl. 14:10:39 (0)


138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[14:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um efnahagsmál og stöðu heimilanna í landinu því að mörg heimili á Íslandi í dag glíma við gríðarlega mikla erfiðleika. Sá sem hér stendur er af þeirri kynslóð sem er trúlega sú skuldugasta í Íslandssögunni. Þess vegna er grátlegt að við búum enn þá við hæstu stýrivexti í heimi sem leggjast ofan á þær miklu skuldir þessarar kynslóðar, þessarar kynslóðar sem á og mun leiða þjóðina í gegnum þá kreppu og ætlar að taka á sig gríðarlega skuldabagga sem fylgja því hruni sem nú gengur yfir.

Hv. stjórnarliðar tala hér um að það sé nauðsynlegt að fara í skattahækkanir og því bið ég hv. þingmenn að gæta hófs í orðavali. Sú kynslóð sem ég tilheyri, eins og ég sagði áðan, er mjög skuldug. Fólk gerir allt til þess að ná endum saman við hver mánaðamót og þegar við heyrum að samdráttur verði um 16% í tekjum heimilanna eru það grafalvarleg tíðindi fyrir það fólk sem á í dag í erfiðleikum við að láta enda ná saman. Ríkisstjórnin virðist því miður einungis tala um skattahækkanir og niðurskurð í rekstri hins opinbera, raunar engar aðgerðir sem fela það í sér að auka umsvifin í samfélaginu, fjölga hér störfunum. 13.000–14.000 Íslendingar eru án atvinnu. Engar tilraunir eru gerðar til að auka veltuna á Íslandi í dag og það er mjög alvarlegur hlutur. (MSch: Gæta hófs.) Gæta hófs, (MSch: Í orðavali.) segir hv. þingmaður, í orðavali hér. Ég held að hv. stjórnarliðar, kannski sá aðili sem talaði á undan mér, ættu frekar að taka þau orð til sín því að ég tel mig flytja hér mjög hófsama ræðu.

Það er mjög alvarleg staða í samfélaginu og ég held að ríkisstjórnin ætti að líta í eigin barm vegna þess að hún hefur verið hrakin í vörn í hverju einasta máli, m.a. er varða skattamál sem hún hefur talað fyrir á undangengnum mánuðum. Hverjir hafa hrakið ríkisstjórnina í vörn í þeim efnum? Það er ekki bara stjórnarandstaðan á þingi, það eru aðilar vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Hvað er orðið um fyrirheitin um samráð, samvinnu og sátt í íslensku samfélagi?

Eigum við að þurfa að reka ríkisstjórnina í vörn í hverju einasta máli, ekki bara stjórnarandstaðan heldur aðilar úti í samfélaginu? Hvernig væri að fara að hefja eitthvert raunverulegt samráð við stjórnarandstöðuna og samfélagið sem er hérna fyrir utan? Mér sýnist að margir stjórnarliðar geri sér einfaldlega ekki grein fyrir því hversu grafalvarlegt ástandið er. Við getum komist út úr þessu, en til þess þurfum við að gera það saman. Ríkisstjórnin virðist því miður (Forseti hringir.) hvorki vilja hafa mikið samráð við okkur sem erum hér á vettvangi Alþingis né aðra mikilvæga aðila í samfélaginu.