Rafbyssur

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 13:55:33 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

rafbyssur.

[13:55]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmönnum barst á dögunum afrit af bréfi sem Amnesty International á Íslandi sendi hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra. Þar vekur Amnesty athygli á skýrslu samtakanna sem kom út síðla á síðasta ári og er rannsóknarskýrsla á áhrifum þess að lögregla noti rafbyssur við störf sín. Ég býst við að flestir þingmenn hafi þetta bréf undir höndum. Ég vil, með leyfi frú forseta, vitna í bréfið. Þar segir:

„Nokkur umræða hefur verið hér á landi að undanförnu um hugsanlega heimild sem íslensku lögreglunni væri veitt til þess að bera rafbyssur við störf sín. Í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja: hættu á misnotkun, fjölda dauðsfalla þar sem rafbyssur koma við sögu og þeirrar staðreyndar að þær valda miklum sársauka sem getur jafnast á við pyndingar, hefur Íslandsdeild Amnesty International lagt áherslu á að íslensk lögregluyfirvöld taki ekki upp rafbyssur hér á landi.“

Í bréfinu er farið ítarlega yfir það hvað skýrslan segir um fjölda dauðsfalla, m.a. í Bandaríkjunum og Kanada þar sem rafbyssur hafa verið leyfðar. Mig langar af þessu tilefni að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir því hvort þetta erindi hafi verið á hennar borði og hvort það hafi verið til umfjöllunar innan ráðuneytisins eða hvort hún viti hvort lögregluyfirvöld á Íslandi íhugi í alvöru að að biðja um að fá að nota rafbyssur.