Samningsveð

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 18:08:42 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[18:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð. Flutningsmenn eru, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, þingmenn úr nokkrum flokkum, öllum utan Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Í upphafi vil ég segja þingmanninum frá minni hlið. Mér vitandi hefur ekki verið leitað til mín um þetta. Það getur þó vel verið að í öllu tölvupóstsflóði og pappírsflóði hafi komið inn beiðni og ég biðst forláts á því ef henni hefur ekki verið svarað. En ég get alla vega fullyrt að það eru ekki pólitísk samantekin ráð okkar sjálfstæðismanna að vera ekki á frumvarpinu.

Ég ætla svo sem ekki að ræða frumvarpið mikið efnislega, aðrir hafa gert það á undan. Ég vil hins vegar þakka flutningsmönnum fyrir þetta framtak, frumkvæði, og ég vona að frumvarpið fái góða og þinglega meðferð. Ég tel að við séum í þeirri stöðu núna sem þjóð að við megum ekki útiloka eina eða neina hugmynd. Við eigum að skoða þessi mál með opnum huga. Það getur vel verið, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði á undan, að þetta þyki fullróttækt í einhverjum kreðsum en það verður þá bara að vera svo.

Ég er sammála honum í því að það eru róttækir tímar og við þurfum róttækar aðgerðir. Við getum ekki staðið hér og horft upp á það að fólk fari í fjöldagjaldþrot, heimilin í landinu fái ekki þau úrræði sem kallað er eftir. En ég skal hins vegar algerlega viðurkenna vanmátt minn og þekkingarleysi varðandi þetta ágæta frumvarp, ég veit ekki og get ekki staðið hér og sagt að þetta sé leiðin sem við eigum að fara. Ég vil hins vegar að við þingmenn tökum höndum saman og skoðum það með kostum og göllum hvort þetta sé leiðin eða hvort einhver önnur leið sé betri. Eitt veit ég og eitt er ég fullviss um, að eitthvað þarf að gera. Við þurfum að taka fastar á þessum málum vegna þess að núverandi ástand er algerlega óviðunandi.

Þetta vildi ég koma og segja við 1. umr. — ég treysti því að frumvarpið fái góða meðferð í allsherjarnefnd og mun fylgjast með framvindu þess í þinginu.