Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 19:30:00 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:30]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Takk, herra forseti. Ég er ánægð að heyra að við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson séum sammála um að leita uppi atvinnu sem ekki mengar. Þetta samræmist náttúrlega stefnu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna og ég er ánægð með það. Hins vegar finnst mér hv. þingmaður ekki hafa náð að útskýra sig fram hjá því sem ég stillti hérna upp, að þetta eru ekki fastar stærðir í atvinnuuppbyggingu í heiminum. Það er ekki einhver X-mengandi iðnaður þarna úti sem við þurfum að taka inn á okkur í staðinn fyrir t.d. beita okkur fyrir því að í framleiðslu í heiminum öllum sé meira horft til umhverfissjónarmiða og dregið úr neyslu að því leyti sem hún er umhverfisskaðandi.

Þarna held ég að við Íslendingar ættum að beita okkur í alþjóðasamskiptum í staðinn fyrir að grenja um undanþágu til þess að fá að menga meira. Nú þegar mengum við mjög mikið á haus, svo ég haldi áfram í hausatalningum af því þær eru bara nokkuð markverðar. Við erum komin afskaplega hátt eftir að álverið í Reyðarfirði komst í gang og ef tvö álver rísa í viðbót veit ég ekki hvort við verðum jafnvel komin fram úr þeim sem mest menga í heiminum, Bandaríkjunum og Ástralíu, sem ekki hafa viljað skrifa undir Kyoto-samninginn m.a. af þeim orsökum. Mér finnst að hv. þingmaður megi svara því hvort Íslendingar eigi ekki að beita sér þannig að dregið sé úr mengandi framleiðslu á vörum í heiminum í stað þess að grenja út undanþágur.