Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 15:33:05 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo ég sleppi einhverjum kárínum sem komu fram í ræðu hv. þingmanns og voru að því er mér heyrðist settar fram til að reyna að draga lýðræðisást mína í efa, ég ætla ekki að svara því en ég hef margítrekað úr þessum stól og annars staðar lýst því yfir að ég telji að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi fullan rétt á sér. Það sem ég var að vísa til eru bara einföld praktísk atriði. Við erum stödd á Alþingi 12. nóvember, það þarf að samþykkja fjárlög fyrir áramót og það eru fimm vikur eftir af starfstíma Alþingis. Í allsherjarnefnd, sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir stýrir, eru nú tvö frumvörp um kosningalög, þar er frumvarp um dómstóla, það er von á þessu frumvarpi og frumvarpi um stjórnlagaþing. Á sama tíma glímum við við það hvernig við eigum sem þingmenn og nefndarmenn í allsherjarnefnd að tryggja það að grundvallarstofnanir sem undir okkar verkefnasvið heyra, hafi fjármagn til að starfa eðlilega á næsta ári. Þetta eru verkefnin sem við erum með. Og á þeim takmarkaða tíma sem við höfum, hvort sem er í allsherjarnefnd eða í þinginu, verðum við að forgangsraða og jafnvel þó að við fundum hérna öll kvöld og alla morgna verðum við að forgangsraða.

Það sem ég er að segja er að ég vil glíma við þessi brýnu og aðkallandi viðfangsefni, við það að hér er efnahagslífið í sögulegri lægð, við þurfum að ná því upp úr henni. Fjárhagur ríkissjóðs er í sögulegum vanda, við þurfum að ná okkur upp úr því. Við þurfum að tryggja að ríkið skeri niður og hafi tekjur en að það sé gert af skynsemi. Ég held að okkur veiti ekkert af tímanum núna það sem eftir er þessa þings til að vinna að þeim verkefnum. Ég er reiðubúinn (Forseti hringir.) til að hitta hv. þingmann og ræða þessi ágætu mál, t.d. í janúar.