Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009, kl. 15:43:50 (0)


138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er dálítið erfið spurning. Svona almennt séð treysti ég ekki núverandi ríkisstjórn, bara svo það liggi fyrir. Ég hygg hins vegar að núverandi ríkisstjórn, ef hún sæti enn þá, mundi ekki knýja fram niðurstöðu í trássi við niðurstöðu bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kæmi mér á óvart. En það kæmi mér heldur ekki á óvart að þá yrði reynt að fara í einhverjar æfingar til að fara einhverjar aðrar leiðir í þessu sambandi. Það er svona það sem mín tilfinning gengur út á. Staðreyndin er auðvitað sú að það sem gerst hefur í sambandi við mjög marga sáttmála Evrópusambandsins í Evrópusambandsríkjunum, er að ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu hefur ekki verið í samræmi við vilja þarlendra stjórnvalda eða Evrópusambandsins, hafa verið farnar einhverjar krókaleiðir til að ná sömu niðurstöðu gegn þeirri niðurstöðu sem varð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég nefndi áðan Lissabon-sáttmálann. Það var farið fram með stjórnarskrá Evrópusambandsins eins og það var kallað, hún var felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Hollandi og Frakklandi en nú er hún orðin gildandi réttur Evrópusambandsins þrátt fyrir þetta, með alls konar krókaleiðum, með lagatækni og einhverjum flækjum. Ég geri ráð fyrir að núverandi ríkisstjórn mundi ekki ganga beinlínis gegn niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, ég ætla þeim það ekki, en á hinn bóginn held ég að með því væri málinu ekki lokið.