Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 15:55:24 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:55]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast um að mér takist á þeim stutta tíma sem ég hef að svara öllum spurningum þingmannsins. En hv. þingmaður Ásbjörn Óttarsson spyr mig fyrst um hvað mér finnist um að þau 80% sem fara núna umfram ráðgjöf í úthlutun á skötusel. Sannleikurinn er sá að skötuselurinn er ný fisktegund á Íslandsmiðum, það eru ekki mörg ár, kannski tveir áratugir, síðan hans fór fyrst að verða vart á íslenskum fiskimiðum. Það hefur ekki verið sýnt fram á það með neinum hætti að þessi tegund sé í neinni útrýmingarhættu og hefur einmitt sætt gagnrýni að það skuli yfirleitt hafa verið gefið út sérstakt aflamark á skötusel. Ég hef því engar sérstakar áhyggjur af því þótt sá kvóti sé aukinn um 2.000 tonn umfram þau 2.500 tonn sem áður hafði verið úthlutað og Hafrannsóknastofnun virðist ekki hafa áhyggjur af því heldur. Hins vegar finnst mér mjög gott og ég er mjög hlynnt því að tekjurnar af því sem þarna er tekið umfram ráðgjöf skuli renna í ríkissjóð og að þær skuli verða eyrnamerktar til uppbyggingar annars vegar í atvinnulífi og til rannsókna hins vegar. Það held ég að sé bara mjög þarft.

Varðandi það sem þingmaðurinn spurði um svigrúm innan kennitölu varðandi veiðiskyldu, er ég ekki svo útfærð í tilfærslum og „bókhaldsfiffum“ útgerðarinnar að ég geti hreinlega svarað þeirri spurningu. Enda áttaði ég mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn var að fara og læt það liggja milli hluta og vil gjarnan leyfa öllum slíkum álitamálum að bíða umfjöllunar nefndarinnar þegar til hennar kasta kemur.