Lyfjalög

Þriðjudaginn 17. nóvember 2009, kl. 16:07:27 (0)


138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Frumvarpið er að finna á þskj. 222. Frumvarpið er einfalt í sniðum. Í 1. gr. segir: „Orðin „eða smásöluaðilar“ í 3. málsl. 42. gr. laganna falla brott.“ Síðan er gildistökuákvæði 1. janúar 2010.

Með frumvarpinu er lagt til að fellt verði brott ákvæði sem varðar bann við afsláttum á lyfjum í smásölu. Þetta hefur í för með sér, verði frumvarpið að lögum, að bann við veitingu afslátta til sjúklinga í apótekum, sem átti að taka gildi 1. janúar nk., komi ekki til framkvæmda.

Ég ætla stuttlega, frú forseti, að rekja aðdraganda þessa, en með lögum nr. 97/2008 var 42. gr. lyfjalaga breytt á þann veg að lyfjaheildsölum og smásölum sem vildu selja vildu lyf á lægra verði en hámarksverð sagði til um var gert að tilkynna lækkað verð til lyfjagreiðslunefndar og jafnframt var þeim gert skylt að selja lyfið á sama verði á öllum sínum sölustöðum.

Hvað varðar lyfjaheildsölu kom þetta ákvæði til framkvæmda 1. október 2008, en ákvæðinu varðandi smásöluna hefur hins vegar verið frestað í þrígang, fyrst til 1. janúar 2009, þá til 1. apríl 2009 og loks til 1. janúar 2010 með lögum nr. 28/2009.

Helstu rök, frú forseti, fyrir því að stemma stigu við afslætti í heildsölu voru þau að talið var hægt að lækka lyfjaverð sem honum næmi, en þáverandi kerfi ýtti undir að sótt væri um hátt verð í lyfjaverðskrá. Talið var svigrúm til að lækka lyfjaverð í landinu og eðlilegt að þeir fjármunir sem nýttir höfðu verið til þess að gefa afslætti í heildsölunni, væru í þess stað notaðir til að lækka lyfjaverð. Með þessum hætti var talið að ábatinn rynni óskertur til sjúklinga og ríkisins en ekki til milliliða.

Fyrir þessar breytingar og í kjölfar þeirra urðu verðlækkanir á lyfjum í maí og október 2008 sem áætlað var að næmi um 500 millj. kr. á smásöluverði á ársgrundvelli. Að mati formanns lyfjagreiðslunefndar hafa áform lagabreytinganna gengið eftir enda þótt gildistöku á þeim hluta ákvæðisins er varðar bann við afsláttum í smásölu hafi þrívegis verið frestað.

Frestunin hefur í þessi þrjú skipti verið rökstudd þannig að í undirbúningi væri nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja og talið mikilvægt að afnám afslátta af lyfjum í smásölu héldist í hendur við innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis.

Nú munu hv. þingmenn kannast við það sem hér er vitnað til, sem er nefnd sem sett var á laggirnar af þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, og kennd er við formann sinn, sem er hv. þm. Pétur Blöndal.

Nú er óljóst hvort og þá hvenær nýtt greiðsluþátttökukerfi verður að veruleika, en nefndin var lögð af síðasta vetur. En á undanförnum mánuðum hefur greiðslufyrirkomulagi lyfja hins vegar verið breytt til lækkunar lyfjakostnaðar Sjúkratrygginga Íslands vegna samræmdra aðgerða til lækkunar opinberra útgjalda. Í því ljósi þykir mikilvægt að sjúklingar geti áfram, eins og verið hefur, notið afsláttar við kaup á lyfjum sínum í apótekum. En félagasamtök, eins og til að mynda Hjartavernd, hafa náð samningum við smásalana, eða apótekarana, um slíkan afslátt og mundi hann falla niður 1. janúar nk. ef ekki kæmi til samþykktar þess frumvarps sem ég hér mæli fyrir.

Frú forseti. Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi kostnaðaraukningu í för með sér fyrir ríkissjóð. Markmiðið með breytingunni sem ég mæli hér fyrir um er að standa áfram sem bestan vörð um hagsmuni og velferð sjúklinga á erfiðum tímum.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.