Lyfjalög

Þriðjudaginn 17. nóvember 2009, kl. 16:30:41 (0)


138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:30]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum stjórnarfrumvarp, lyfjalög, 198. mál á þskj. 224. Þetta er ekki stórt mál að vöxtum en eins og með mörg mál sem snúa að heilbrigðisþjónustunni og sem í þessu tilfelli geta haft áhrif á lyfjaverð til neytenda skiptir auðvitað miklu máli að farið sé vel yfir það og það vel unnið. Ég fagna því að þetta mál sé nú fram komið þannig að það náist að vinna það í heilbrigðisnefnd og vonandi afgreiða það fyrir jólahrotuna þannig að það lendi ekki inni í afgreiðslu fjárlaga og fái ekki þá umræðu sem þarf.

Hvað varðar verðlagningu á lyfjum er þetta mjög flókið kerfi fyrir almenning og jafnvel fyrir þá sem vinna við þessi störf innan heilbrigðisþjónustunnar er þetta flókinn heimur sem snýr að lyfjaframleiðslu, verðlagningu og eftirliti. Þetta er engin venjuleg vara, framleiðslan, eftirlitið og krafan um ný lyf og nýja framleiðslu, betri virkni, meiri fjölbreytni og samkeppni meðal framleiðenda er mikil. Það er mikils vert að þeir sem eru í frumlyfjunum séu varðir þannig að vöruþróun sé ekki ógnað. Á sama tíma er gerð krafa um að ná niður verði og nota svokölluð samheitalyf sem eru þess eðlis og framleiðslan komin á það stig að einkaleyfið er farið af. Það er hægt að framleiða ódýrari lyf með sambærilegri verkun.

Þeir sem stýra notkun lyfjanna eru læknar og í raun og veru er þetta í þeirra höndum. Það krefst mikillar árvekni og í raun og veru hliðarbúgreinar hjá læknum að fylgjast með verðlagningu á þeim lyfjum sem eru á markaðnum og að nota ódýrustu lyfin en jafnframt góð lyf og án þess að það skapi hættu fyrir sjúklingana. Til að einfalda læknum þetta eru víðast hvar á stofnunum komnar upp leiðbeiningar um hvaða lyf beri að nota. Á stærri stofnunum er farið að fækka þeim lyfjum sem standa til boða eða eru notuð innan stofnunarinnar og allt reynt til að halda verðlagi í lágmarki en öryggi í lagi.

Það er hægt að halda langar ræður um þetta en ég vildi aðeins sýna fram á að þetta er flókið. Með þessu frumvarpi er verið, umfram það sem gert hefur verið til að ná niður lyfjaverði, að ávísa á samheitalyf, ávísa lægsta verði af lyfjum með sambærileg gæði, að ná þessum norræna lyfjamarkaði og stuðla að innlendri framleiðslu á lyfjum eins og innrennslislyfjum núna þegar gengisþróunin hefur verið okkur óhagstæð. Síðast er það sem snýr að sjúklingunum sjálfum að lagt er til að heimilt sé miðað við þær aðstæður sem núna eru að leyfa áfram afslætti yfir búðarborðið eins og kallað var, sem sagt afslætti frá smásölum til sjúklinga.

Ég tel að heilbrigðisnefnd muni fara vel yfir þetta og skoða. Við búum vel að fulltrúum í heilbrigðisnefnd sem hafa kynnt sér þessi mál vel þannig að ég efast ekki um að afgreiðslan í nefndinni verði fagleg og eigi ekki að þurfa að taka mjög langan tíma. Alla vega er það mín ósk að við getum lokið þessu máli áður en mestu annir þingsins hefjast fyrir jól.