Lyfjalög

Þriðjudaginn 17. nóvember 2009, kl. 16:42:52 (0)


138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:42]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það og er nokkuð óróleg yfir því hvað tíminn líður hratt en þá er líka rétt að vinna skipulega og taka eitt mál í einu. Núna fjöllum við bara um einn afmarkaðan þátt og ef það kemur í ljós við yfirferð á þessu máli að þessi breyting muni hafa áhrif til lækkunar á lyfjaafgreiðslu til sjúklinga, og það væru í raun og veru einu sjáanlegu áhrifin, mundum við auðvitað fagna því og fallast á þessa breytingu. Ef það sýndi sig að svo yrði ekki eða hefði aðrar aukaverkanir eða önnur áhrif í för með sér mundum við meta það.

Með þessu frumvarpi erum við ekki á stuttum tíma að fara að vinna að þessari heildarendurskipulagningu en mér finnst mikilvægt að hafa hana alltaf í bakgrunni, að við munum stefna að því. Þetta gæti þess vegna verið liður í því. Ef áhrifin verða þau að þetta lækki verð til sjúklinga tel ég þó að við eigum að vera mjög jákvæð og stuðla að því. Ekki veitir af núna.

Hvað varðar umræðuna um hjúkrunarheimilin og flutning á milli ráðuneyta þá er það umræða sem við verðum að taka fyrir sérstaklega og það mun ekki standa á mér að taka það mál til umræðu í heilbrigðisnefnd. Við erum þegar búin að fá stutta kynningu en við þurfum að fara miklu betur yfir málið. Það verður gert við fyrsta tækifæri og ég bý fulltrúa í heilbrigðisnefnd undir að sitja aukafundi þess vegna.